Emilía- þegar stærðfræðibókin kemur með heim úr skólanum

Í hvert skipti sem Perla kemur heim með Sprota (stærðfræðibókina sína) fæ ég alltaf smá hnút í magann.

Perla er í 4 bekk, og henni gengur vel í skóla og er mjög dugleg.
Hún er áhugasöm, kurteis og rosalega heppin með kennarana og starfsfolkið sem sér um hennar bekk.

Okkur gengur yfirleitt mjög vel með íslensku verkefnin sem hún kemur heim og reynum að lesa á hverjum degi en Guð á himnum hjálpi mér þegar stærðfræðibókin læðist með heim.

Undantekningalaust endum við Pálmi bæði yfir henni að reyna að rifja upp hvernig á að reikna, nota bene alls ekki flókin dæmi en dæmi sem við erum ekki að reikna á hverjum degi og höfum ekki verið að reikna í mörg ár.

Við Pálmi erum bæði með stúdentspróf í stærðfræði. Pálmi fór svo í atvinnuflugmannsnám þar sem hann þurfti heldur betur að læra allskonar stærðfræði, eðlisfræði og ég veit ekki hvað þetta allt heitir. Þrátt fyrir það getur það reynst þrautinni þyngra að rifja upp hvernig í ósköpunum hin og þessi dæmi eru reiknuð.

Ég ætla að fullyrða að við foreldrar skólabarna höfum líklega verið missterk í stærðfræði á okkar yngri árum. Ég sem dæmi átti frekar erfitt með stærðfræði í grunnskóla og það var ekki fyrr en ég fór í framhaldsskóla sem ég fór að átta mig á henni.Því er það kannski ekkert sérstaklega frábær hugmynd að hún komi heim með stærðfræðibækurnar þar sem við hjónin skiptumst á að rifja upp hvernig er best að reikna dæmin.
Leiðbeiningarnar í bókinni eru mjög óljósar og ekki hægt að treysta á þær við úrlausn allra dæmana

Eftir mikil heilabrot og loksins lausn á dæmunum situr Perla eftir algjörlega grunlaus um það hvernig á að reikna dæmin.

Ég tók þessa umræðu á snappinu mínu fyrir ekki svo löngu og þar voru allflestir sammála því að stærðfræði ætti ekki að vera kennd heima, heldur í skólanum.

Það er kannski erfitt að eiga við þetta ef nemendur eru ekki að ná að halda áætlun sem sett er en kannski þarf að finna einhverja aðra lausn svo að þau fái rétta kennslu.

Ég kasta þessu allavega hér með útí kosmósið.

Til þess að fyrirbyggja allan misskilning þá erum við rosalega ánægð með skólann hennar Perlu og kennarana hennar.

Þangað til næst…

Kveðja,

Emilía Björg
Þið finnið mig á instagram: emiliaboskars

ebo-11

Nýtt á makaðinum gúmmí-brúnkubangsar!!

Það kannast flestir við hár vitamínið sem er í fotmi gel-bangsa en þeir eiga að auka hárvöxt.

En nú eru komnir á markaðinn brúnkubangsar til inntöku sem hjálpa þér að ná fallegum lit á kroppinn!

Þú getur lesið meira og verslað þessa brúnkubangsa inn á Superdrug HÉR

“The world’s first edible tan supplements developed by healthcare experts using tried & tested, traditional vegan ingredients. “

Hvað með grennandi-gúmmíbangsa eru þeir ekkert að koma á markaðinn? 🙂

 

 

 

 

Hér má finna 20 einfaldar hugmyndir til þess að koma meiri hreyfingu inn í líf þitt

Hér má finna 20 hugmyndir frá Harvard Health til þess að koma meiri hreyfingu inn í líf þitt, og til að fá meiri hreyfingu út úr hlutum sem við gerum daglega. Nú er um að gera að reyna að beita öllum ráðum til að auka hreyfingu okkar þar sem hreyfing getur verið góð í baráttunni gegn hjartasjúkdómum. Allt hljómar þetta einfalt, þá er bara að koma þessu í verk.

 1. Veldu hreyfingu sem þér finnst skemmtileg. Það er ýmislegt sem flokkast sem góð hreyfing: dans, ganga, jóga, garðyrkja, hjóla, spila körfubolta o.s.frv. Til að auðvelda þér það að byrja að hreyfa þig, þá skaltu velja eitthvað sem þér finnst fyrst og fremst skemmtileg til að koma þér af stað. Veldu eitthvað sem þú sérð fyrir þér að henti þér, ertu til í að smella þér í hentug föt og hjóla í vinnuna? Hentar þér að dilla þér við skemmtilega tónlist í tíma með öðrum? Eða sérðu þig fyrir þér á hlaupabrettinu?
 1. Pússlaðu hreyfingunni saman. Þú þarft ekki endilega að eyða mjög löngum tíma í einu í hreyfingu. Tíu mínútur á morgnanna, í hádeginu og á kvöldin getur skilað sama ávinningi og 30 mínútur í einu.
 1. Æfðu með vini/vinkonu. Það getur verið hvetjandi, komið þér útum dyrnar og haldið þér við efnið ef þú ert með einhvern sem æfir með þér.
 1. Hafðu hreyfinguna röska. Þegar þú ert að labba, gerðu það rösklega frekar en að labba rólega, þetta getur verið betra þegar kemur að þyngdarstjórnun. En hvað er nógu rösklegt? Labbaðu eins og þú sért á leið í hádegismat með vini og þú ert frekar sein/n. Þú getur einnig talið hvað þú tekur mörg skref á mínútu: 120-135 skref á mínútu samsvarar því að labba á 4.8 til 6.4 km á klst, sem er gott markmið fyrir flesta. Ef þú ert ekki alveg svona rösk/ur, þá er sniðugt að auka hraðann á köflum og hægja svo aftur, smátt og smátt nærðu þá að vinna þig upp í meiri gönguhraða.
 1. Taktu smá hreyfingu í hádegishléinu. Ekki eyða öllu hádegishléinu sitjandi. Ef tími gefst, kíktu í líkamsrækt eða í 20 mínútna göngutúr jafnvel með vinnufélaga. Þú getur svo fengið þér í gogginn þegar þessu er lokið.
 1. Prófaðu að nota skrefamæli. Skrefamælar eru ódýrir og einfaldir í notkun, þeir hjálpa til við að halda utan um hversu virk/ur þú ert. Einnig eru til ýmis konar „öpp“/forrit fyrir síma sem telja skref. Reyndu að vinna þig upp í um 7000 skref á dag, eða meira.
 1. Taktu stigann. Notaðu stigann í stað lyftunnar eða rúllustigans alltaf þegar færi gefst.
 1. Slökktu á sjónvarpinu, tölvunni og snjallsímanum. Það að minnka tímann sem eytt er fyrir framan skjáinn er góð leið til að minnka þann tíma sem þú eyðir „sitjandi“. Skiptu þessum tíma út fyrir hreyfingu, kíktu í ræktina, eða taktu jafnvel smá tiltekt um húsið eða göngutúr.
 1. Labbaðu eina auka stoppistöð. Ef þú tekur strætó, þá er til dæmis hægt að fara út einni stoppistöð fyrr en vanalega og labba þar með rösklega aukaspöl.
 2. Leggðu eins langt í burtu og þú getur. Ef þú keyrir í vinnuna eða ert að snúast, leggðu þá viljandi aðeins lengra í burtu frá vinnustaðnum eða búðinni en vanalega. Þetta virðist kannski ekki vera mikið, en yfir vikurnar og mánuðina þá safnast þessar mínútur saman.
 3. Gerðu þína eigin „rækt“. Veltu fyrir þér hvort þú getir keypt einhvers konar líkamsræktartæki til að eiga heima, eins og spinning hjól, lóð, jógadýnu eða annað. Þetta getur verið ansi hentugt ef maður á erfitt með að koma sér í ræktina að hreyfa sig.
 4. Hafðu gaman. Prófaðu nýja íþrótt, til dæmis badminton eða að fara á línuskauta. Því skemmtilegri sem þér finnst hreyfingin, því líklegra er að þú haldir þig við hana.
 5. Finndu þér félagsskap. Farðu í göngutúr með vini/vinkonu, maka eða fjölskyldumeðlim annað hvort á morgnanna eða á kvöldin.
 6. Skráðu þig í tíma. Athugaðu hvort líkamsræktarstöðin þín, eða aðrir staðir, eru með tíma sem hægt er að skrá sig í, til dæmis gæti það verið yoga eða danstímar einhver staðar. Það hentar mörgum að eiga að mæta á ákveðnum tímum og vera að læra eitthvað nýtt, það getur haldið manni við efnið.
 7. Breyttu „sitjandi-tíma“ í „hreyfi-tíma“. Þegar þú ert upptekinn og lítill tími finnst til að hreyfa sig, þá er sniðugt að reyna að hreyfa sig þegar maður er annars vanur að sitja. Gera nokkrar æfingar fyrir framan sjónvarpið, til dæmis magaæfingar eða skokka á staðnum, eða á meðan maður les svo eitthvað sé nefnt.
 8. Skrifaðu niður hvað þú hreyfir þig mikið. Það er gott að fylgjast með því hversu mikið maður hreyfir sig og því gott að skrifa það niður daglega til halda sér við efnið.
 9. Labbaðu eða hjólaðu þegar þú ert að snúast um bæinn. Skildu bílinn eftir heima þegar þú ert að fara að snúast í nágrenninu eða ekki svo langt í burtu. Kláraðu þannig eitthvað sem þarf að gera, og fáðu hreyfingu í leiðinni.
 10. Ráðfærðu þig við þá sem þekkja til. Fáðu þér einkaþjálfara í einn til tvo tíma til þess að læra nýjar æfingar eða fá prógramm og ráðleggingar sem henta þér. Það auðveldar manni oft að koma sér af stað og að halda svo áfram sjálfur.
 11. Skipulegðu hvenær yfir daginn þú ætlar að hreyfa þig. Taktu frá ákveðinn tíma yfir daginn sem hentar þér til þess að hreyfa þig og settu hann inn í dagbókina.
 12. Verðlaunaðu sjálfan þig. Settu þér skammtíma markmið – og verðlaunaðu þig þegar þú nærð þeim. Veldu þér verðlaun sem tengjast hreyfingu, til dæmis ný æfingaföt eða búnað, eða púlsmæli svo dæmi séu tekin. Settu þér jafnvel ákveðinn atburð sem tímamarkmið, til dæmis kvennahlaupið, 5km í Reykjavíkurmaraþoninu, eða einhverjar skemmtilegar göngur í náttúrunni sem þú vilt taka þátt í. Þetta getur hvatt þig áfram og haldið þér við efnið.

Þetta hljómar allt saman afskaplega einfalt. Þá er bara að koma þessu í verk og muna að það safnast þegar saman kemur – það á einnig við um mínúturnar sem maður eyðir í hreyfingu.

Hanna María Guðbjartsdóttir.

Grein frá Hjartalíf sjá HÉR 

 

Chiagrautur – Fimm frábærar uppskriftir

Chiagrautar

Chiafræin innihalda mikið magn af próteinum, omega 3 fitusýrum, andoxunarefnum, vítamínum og steinefnum. Þau eru auðmeltanleg en standa lengur með okkur en hefðbundið morgunkorn. Þau eru  lág í hiteiningum – góð fyrir “systemið” okkar og blóðsykurinn. Þannig að það er um að gera að  nota þau alveg óspart hér og þar. Chiafræin er líka mun fljótlegra að leggja í bleyti heldur en önnur fræ en þau þarf aðeins að hafa í bleyti í um 10-20 mínútur, en því lengur því betra og best yfir nótt og  alls ekki sjóða bara hræra saman.

Hér eru nokkrar girnilegar uppskirftir sem við fundum á netinu

 

Chia grautur fyrir tvo

½ dl Chia fræ

vatn eða möndlumjólk/rísmjólk

banani eða aðrir ferskir ávextir eða frosin ber

kanill

Þegar fræin eru öll vel böðuð er gott að taka hálfan banana og mauka hann léttilega með grautnum með gaffli í skálinni eða setja frosin bláber eða önnur ber eða ávexti út í. Gott er að strá kanil yfir eða niðurskornum ávötum.. Þau eru ofurfæða og innihalda nær öll þau næringarefni sem líkaminn þarf á að halda,

 

Chia grautur Ebbu Guðnýjar:

1 msk chia fræ
100 ml vatn (beint úr krananum)
u.þ.b. 1 tsk kanill
Ávöxtur að eigin vali.

Chia og vatn sett saman í skál – látið bíða í u.þ.b. 10 mín.
Setjið kanil út í, skerið niður ávöxt (mjög gott að hafa mango) og hendið út í. Algjört nammi.

 

Gómsætur Chia Grautur
1 bolli möndlumjólk (getur verið hvaða mjólk sem er, rísmjólk, haframjólk etc.)
1/5 bolli Chia fræ
1/4 tsk vanilluduft
1/2 epli skorið í bita og nokkur frosin hindber/bláber –

 

Chia grautur í morgunmat eða millimál

Innihald:

 • 2 dl frosin eða ferskur mangó ( mátt reyndar setja hvaða ávöxt sem þú vilt)
 • 1 msk gojiber
 • 1 msk chia fræ
 • 9-10 msk vatn
 • ½ tsk kanill
 • 4 dropar vanillustevía Via-Health

Aðferð:

 • Chia fræ sett í skál ásamt vatni,kanil og stevíu
 • Látið standa í 10 mínútur
 • Mangó og gojiber sett í aðra skál
 • Graut hellt yfir þegar chia fræin eru tilbúin
 • Njótið!

 

Chia grautur að hætti Davíðs

 • 2-3 mtsk af Chia fræjum frá Naturya
 • 2 mtsk af lífrænu kókoflögum frá Himneskri hollustu
 • ½-1 epli lífrænt, niðurskorið
 • 2 msk af hnetum eða fræjum (má sleppa)
 • 1 msk kakónibs (má sleppa)
 • 1 msk Goji ber (má sleppa). Goji ber eru mjög rík af andoxunarefnum og gefa góða orku
 • Kanill til að bragðbæta. Kanill kemur reglu á blóðsykurinn
 • Isola möndlumjólk eftir smekk hella henni útá hræra öllu saman og láta bíða í 5 mín

Oddný Silja – Grindarbotnsæfinga öpp!

 

Grindarbotninn, lýsandi fyrirbæri þegar maður horfir á myndina

 

Það gerðist skyndilega einn góðan veðurdag eftir 17 ára afmælið mitt að ég vaknaði 31 árs, tveggja meðgöngu gengin kona (38 vikur með annað barn sem þýðir tveir heilar meðgöngur takk fyrir pent) og eins og konur sem hafa gengið með börn er þetta ein stór hátíð milli nafla og ökkla og svo margt skemmtilegt sem gerist og breytist (lesist kaldhæðið). Ég þakka allavega fyrir að vera orðin 31 og nenni engu pukri hvorki með þetta né önnur heilsufarsmál.

Þrátt fyrir að hafa lokið BS gráðu í heilbrigðisnámi og vita algjörlega betur hef ég alls ekki sinnt þessum mikilvægu æfingum hingað til nægilega vel og ég veit að ég er ekki ein.

Ástæður? “Ég er svo ung og góð í að pissa í klósett að ég mun nú aldrei upplifa þvagleka”

Nú já, góð ástæða þú þarna sjálfhverfa, alltaf að eldast manneskja! Ekki. Alls ekki.

Vissuð þið t.d. að allt að 55% af konum upplifa þvagleka einhvern tíma á ævinni? Hér er ein (fjölmargra) íslensk rannsókn sem gerð var árið 2002 og þar fram kemur að 38% kvenna á aldrinum 30-73 ára höfðu upplifað þvagleka á einhverjum tímapunkti. Önnur rannsókn sem gerð var á stúlkum í framhaldsskólum sýndi að þar höfðu 11% stúlkna upplifað þvagleka. Jæja, þetta eru auðvitað fáránlegar hugsanir enda er líkaminn okkar oftast bara jafn góður og það hversu vel við sinnum honum.

Fleiri ástæður? “Ég man aldrei eftir að gera þessar blessuðu æfingar!”

Okei Oddný ég skal gefa þér það að minni hefur aldrei verið þín sterkasta hlið. Þar er komið að ástæðu þessara færslu en eins og oft áður mæti ég á svæðið fyrst með fréttirnar.

ÞAÐ ER TIL APP (mörg öpp)! Mundu eftir að gera ásamt leiðbeiningum hvernig á að gera grindarbotnsæfingar! Skrifið “kegels” í appstore eða google store hjá ykkur og það koma upp helling af öppum, það sem ég er að nota heitir hreinlega “kegel trainer”.

Fullt af góðum ástæðum fyrir reglulegum grindarbotnsæfingum

Nú er ekkert til fyrirstöðu fyrir heilbrigðum sterkum og fallegum (jæja ég veit nú reyndar ekki hvernig fallegur grindarbotn lítur út) grindarbotn! Og þessi öpp eiga við fyrir alla, konur og kalla. Sterkur grindarbotn hefur ekki bara áhrif á þvaglekann góða heldur getur minnkað líkur á ýmsum fylgikvillum á og eftir meðgöngur / fæðingar og loks haft góð áhrif á kynlíf fyrir bæði kynin.

Annað sem mér fannst merkilegt að komast að er að íþróttakonur virðast ekki undanskildar þessari áhættu þannig sama í hversu góðu formi magavöðvarnir þínir eru þá þarf alltaf að gera grindarbotnsæfingar samhliða öðrum æfingum til að þjálfa þessa vöðva en hér má sjá rannsóknina sem gerð var á því.

Þessar eru sko glaðar, klárlega nýbúnar að gera æfingarnar sínar!

Hér eru góðar og einfaldar leiðbeiningar gefnar út af landlæknis embættinu ef þið eruð ekki viss hvernig æfingarnar eru.

Jæja upplýsingagubbi lokið, allir að sækja öpp og gera grindarbotnsæfingar.

Oddný Silja

Ég er svo á snapchat fyrir áhugasama : oddnysilja

 

 

Einföld og flott greiðsla fyrir millisítt hár

Flott greiðsla

Þessi greiðsla er mjög  einföld og skemmtileg við hvaða tækifæri sem er og hentar best millisíðu og síðu hári þar sem að það þarf að snúa örlítið uppá hárið.

. Lærðu að gera þessa flottu greiðslu með fimm skrefum sem er hægt að sjá hér fyrir neðan:

cda3328627f5a22e7e9fb23c30fdfbb8

#1 Krullið yfir hárið, sérstaklega endana léttilega til að fá þessa flottu liði í hárið og spreyið smávegis af þurrsjampói í rótina til að fá fyllingu í hárið

#2 Skiptið hárinu í tvennt og snúið uppá báða lokkana alveg frá rót og festið saman í tagl.

#3 Búið til gat í miðjunni fyrir ofan taglið og dragið það í gegn

#4 Grípið í endan á taglinu og komið því fyrir þar sem að þið dróguð taglið í gegn áðan

#5 Spennið með feluspennum og togið aðeins í snúðinn sem myndast til að gera hann aðeins lausan l, spreyið vel yfir með hárlakki.

Nú er bara að æfa sig! 

 

Trefjar hafa verndandi áhrif gegn hjartasjúkdómum og krabbameini

Læknirinn og fjölmiðlakonan Miriam Stoppard skrifar um niðsturstöður rannsóknar á trefjum í pistli á The Mirror. Samkvæmt þessari nýjustu rannsókn sem birt var í janúar, þá hafa trefjar verndandi áhrif gegn hjartasjúkdómum og krabbameini.

Það var fyrir um 50 árum síðan sem Dr. Denis Burkitt starfaði í Afríku tók eftir því að Afrískt fólk sem borðaði trefjaríka fæðu fékk svo gott sem aldrei krabbamein í þarmana.

Í dag er talið að trefjar verndi gegn hjartasjúkdómum, ýmsu krabbameini og sykursýki. The British Medical Journal sem kom út 18. janúar síðastliðinn sagði frá niðurstöðum sem styðja þetta.

Teknar voru saman niðurstöður 22 mismunandi rannsókna og sýndu þær að trefjar hafa verndandi áhrif gegn hjarta- og æðasjúkdómum. Fyrir hver 7 grömm af trefjum daglega þá minnkaði hættan á fyrsta hjarta- eða æðatengda atvikinu um 9%. Rannsóknin sýndi að því meiri trefjar sem við borðum, því meiri eru verndandi áhrifin.

Því ættum við öll að borða mikið af trefjum þar sem því fylgir mikill ávinningur fyrir heilsuna. Þar má nefna lækkun blósykurs og hættulegra blóðfitu, einnig geta trefjar minnkað hægðartregðu og sjúkdóma tengda botnlanganum.

Sem stendur mæla almenn næringarviðmið með því að menn borði 30-38 grömm á dag og að konur borði 21-25 grömm á dag.

Til þess að auka trefjainntöku sína þá er gott að reyna að fá blöndu af uppleysanlegum og óuppleysanlegum trefjum og fá trefja úr mismunandi mat.

Matur sem inniheldur trefjar er meðal annars gróf korn og heilhveiti, grænmeti, ávextir, baunabelgir, fræ og hnetur.

Dæmi um uppleysanlega trefja eru hafrar, fræ, hnetur, baunabelgir og flestir ávextir.

Óleysanlega trefja má finna í heilhveiti, hveitiklíð, brúnum hrísgrjónum og flestu grænmeti.

Gott ráð er að velja vörur sem eru með gróft korn sem efsta innihaldsefnið. Annað gott ráð er að skoða hlutfallið af grömmum af kolvetni og grömmum af trefjum. Brauð sem eru með minna hlutfall en 10:1 og morgunkorn með hlutfallið 5:1 innihalda mikið af trefjum. Einnig er ráðlagt að borða frekar ávextina sjálfa frekar en að drekka ávaxtadjús þar sem hann inniheldur yfirleitt ekki trefjar.

Þegar verið er auka trefjainntöku ber að hafa í huga að gera það hægt og drekka mikið af vatni.

Það að borða trefjaríkari mat er í takt við annað sem mælt er með eins og að borða minni sykur og frúktósaríkt kornsýróp, minni transfitu og mettaða fitu, minna unnið kolvetni og minna kjöt.

Almenna reglan er að fólk tekur almennt betur í það að fá ráðleggingar um að borða meira af einhverju, heldur en að fá stöðugt upplýsingar um að borða minna af einhverju.

Upplýsingar Hjartalíf sjá HÉR 

Stefanía – Höfnun er ekki heimsendir

Það er aldrei skemmtilegt að fá höfnun.

 Sama hvort hún er í formi ástar, vinskapar, vinnu eða hvaðeina. En þótt að þú fáir höfnun þá þýðir það ekki að þú sért minna virði sem manneskja, í rauninni þá er höfnun oftast ekki einu sinni persónuleg.

Þegar okkur er hafnað er eitt það algengasta sem að við gerum að setja kastljós á okkur sjálf. Afhverju ég? Hvað er að mér? Hvers vegna er ég ekki nógu góð/ur? Við eigum það til að einblína svo mikið á okkur sjálf að við tökum ekkert annað til greina. Ég þarf reglulega að minna mig á að ég er ekki miðpunktur alheimsins og að gjörðir annara hafa ekki alltaf eitthvað með mig að gera.

Eitt af því sem að ég hef lært er að tímasetningin skiptir öllu máli. Akkúrat núna þá vantar ef til vill ekki fólk með þína hæfileika inn í fyrirtækið, kannski er verið að skera niður og það eru ekki til peningar til þess að greiða nýjum starfsmanni laun. Kannski er manneskjan sem að þér líkar við nýlega komin úr sambandi og vill ekki binda sig eða kannski á sá aðili sem að þig langar að kynnast betur of marga að og hefur ekki tíma né orku í að mynda ný sambönd. Akkúrat núna þá áttu ef til vill ekki samleið með því sem að þú telur þig vilja. Það þýðir ekki endilega að það muni aldrei gerast, en það mun ekki gerast núna.

Taktu alvarleikann úr aðstæðunum. Þú ert ekki fyrsta manneskjan sem hefur verið hafnað. Það gerist við alla og það mun gerast oft. Þú getur lifað lífinu svo varkárlega að þú komir þér aldrei í aðstæður þar sem þú gætir fengið höfnun en hvers konar líf er það? Að taka áhættur getur fært þér ótrúleg tækifæri, stelpan sem að þig langar að bjóða út getur orðið manneskjan sem hafnar þér og lætur þér líða illa í nokkra daga eða hún getur orðið eiginkona þín sem veitir þér hamingju í áratugi. Þú veist ekki fyrr en þú lætur á það reyna.

Þú hefur verið hinum megin við línuna. Hefur þú alltaf sagt já við öllu? Hélt ekki. Ég er líka viss um að í flestum tilvikum þar sem þú hefur verið aðilinn sem hafnar hefur það haft mun meira með þig að gera en hina manneskjuna. Hvaða tímapunkti þú ert á og að hverju þú ert að leita, hverjar aðstæðurnar eru í lífi þínu.

Það mikilvægasta af öllu, sem er oft litið framhjá, er að ef til vill þarftu að skoða eigið sjálfsálit. Það er þekkt fyrirbæri að vilja það sem maður getur ekki fengið, en stoppum aðeins og hugsum um hversu fáránlegt það er. Að einstaklingur sé ekki hrifinn af þér er ekki heillandi eiginleiki! Það er ekki eitthvað sem að maður leitar að í öðru fólki. Aldrei veit ég til þess að ég hafi hugsað „ég vona að honum finnist ég ekki vera sín týpa og sýni mér enga athygli“, þess konar hugsun er út í hött! Þegar þér finnst þú frábær þá viltu ekki hafa fólk í lífi þínu sem er ekki á sama máli. Besta tilvitnun sem ég hef lesið var í bók sem heitir „The Perks of Being a Wallflower“, en þar segir að við samþykkjum þá ást sem við teljum okkur verðskulda. Þú átt skilið það besta og um leið og þú finnur það í hjarta þínu þá hættirðu að þrá manneskjur sem að hafna þér.

Stefanía

Erna Kristín – Þrái nýtt tattoo!

Langar í nýtt tattoo

 

Ég er komin með skyndi þráhyggju fyrir nýju tattoo! Ég er nú þegar komin með ágætan slatta, en ekkert að því að bæta í safnið! En ég vil vara ykkur við, ykkur sem eruð ekki búin að fá ykkur tattoo….

það má segja að þetta sé svona, einu sinni smakkað, þú getur ekki hætt…
En tattoo-ið sem ég þrái að fá mér er lítil rós einhverstaðar…..

er búin að vera skoða staðsettningar og týpur og langar að deila því með ykkur!

Já, ég held ég skelli mér á þetta bara!!

Ert þú með tattoo?

Endilega póstaðu mynd í komment !

Þar til næst

xx

Erna Kristín

Emilía- minn draumur vs. þinn draumur

Þenna pistil er ég búin að vera með í huganum í langann tíma.
Þegar ég hætti í Nylon fékk ég mjög misjöfn álit og skoðanir á ákvörðun sem ég hafði hugsað vel og lengi um.

Fæstir vita að ég ákvað að hætta í janúar 2007, sagði stelpunum og Einari frá því í apríl sama ár og tilkynningin kom svo út í júlí.

 

Ég hafði hugsað mig um mjög lengi. Upphaflega ætlaði ég aldrei að fara með þeim til Bretlands árið 2006, en eftir langt samtal við Klöru Ósk sannfærði hún mig um að ég myndi sjá eftir því ef ég myndi ekki koma með. Sem betur fer fór ég að ráðum hennar og Guð á himnum hvað það var gaman.
Árið 2006 var algjör snilld!

 

 

 

 

Við túruðum um allt bretland, hituðum upp fyrir stórstjörnur á við Westlife, Girls aloud og Mcfly í risa tónleikahöllum. Sungum held ég 7 sinnum á Wembley Arena og svona gæti ég lengi talið upp.


Þetta var algjört ævintýri og við vorum alveg að lifa okkar draum.

Ég fann það samt alltaf innst inni í hjartanu að mig langaði þetta ekki jafn mikið og þeim. Hugur minn var alltaf aðeins meira heima á Íslandi.

Ég fann það undir lok ársins 2006 að mig langaði að gera eitthvað allt annað- langaði að hætta þessu ævintýri og hefja eitthvað nýtt.

Þá komum við að fyrirsögn þessa pistils.

Þeir sem þekkja mig hvað best skildu 100% þess ákvörðun og vissu að hún væri sú rétta fyrir mig.
Þeir sem þekktu mig ekki alveg jafn vel voru skeptískir margir hverjir.
Svo voru það þeir sem hikuðu ekki við að spurja mig hvort ég myndi ekki sjá eftir þessu og hvort ég væri ekki að gera stór mistök.

 

 

Fyrir mig var ég að gera það rétta. Minn draumur var allt allt annar, og ef ég er alveg hreinskilin þá lifi ég mínu draumalífi í dag.

Annað sem fór og fer alltaf jafn mikið í taugarnar á mér er það þegar fólk þarf að sækjast eftir ákveðnum sjokkerandi viðbrögðum.

Sem dæmi:

Þegar stelpunum gekk vel í Ameríku fékk ég að heyra, æj sérðu ekki eftir þessu?
Svo ef það var ekki að ganga alveg jafn vel þá heyrðist- jii ertu ekki fegin að hafa hætt?

Afhverju í ósköpunum þarf að ganga útfrá því að maður lifi í eftirsjá eða vilji að vinkonum sínum gangi ekki vel.


Minn draumur var ekki að “meika” það í bandaríkjunum, en það var draumur vinkvenna minna, vinkvenna sem eiga svo stórann stað í hjartanum mínu og fyrir þeirra hönd vildi ég ekkert annað en að þær fengu að lifa sinn draum.
Afhverju ætti ég að vilja að þeim gangi illa? Hvað á það að gera fyrir mig?


Þegar ég fékk svona spurningar einsog “ertu ekki fegin að hafa hætt” þá fannst mér það alltaf vera á svolítið fölskum forsendum, “ertu ekki fegin að hafa hætt svo þú sért ekki í þessu ströggli sem þær eru í” Ég gat aldrei horft á þetta svona. Ég hélt og held með þeim. Hvort sem þær eru að syngja saman eða vinna að einhverju öðru þá eru þær vinkonur mínar og ég vil að sjálfsögðu að þeim vegni vel.

Spurningin er ekki um það hvort ég sé fegin eða sjái eftir því að hafa hætt.
Þetta er spurning um að við eltum okkar drauma og lítum ekki til baka. Allt sem við gerum er eitthvað sem við lærum af. Það að lifa í eftirsjá er undir öllum kringumstæðum aðeins til að skerða lífshamingju okkar. Við tökum ákvarðanir í lífinu fyrir okkur fyrst og fremst. Auðvitað geta okkar ákvarðanir haft áhrif á líf annarra en við þurfum að hugsa um það sem við viljum.
Við fáum eitt líf og við eigum að gera eins vel og við getum við þetta líf.

Ekki öfunda, samgleðjumst!

Þangað til næst…

Emilía Björg
Snapchat: emiliabj

ebo-11