Emilía- þegar stærðfræðibókin kemur með heim úr skólanum

Í hvert skipti sem Perla kemur heim með Sprota (stærðfræðibókina sína) fæ ég alltaf smá hnút í magann.

Perla er í 4 bekk, og henni gengur vel í skóla og er mjög dugleg.
Hún er áhugasöm, kurteis og rosalega heppin með kennarana og starfsfolkið sem sér um hennar bekk.

Okkur gengur yfirleitt mjög vel með íslensku verkefnin sem hún kemur heim og reynum að lesa á hverjum degi en Guð á himnum hjálpi mér þegar stærðfræðibókin læðist með heim.

Undantekningalaust endum við Pálmi bæði yfir henni að reyna að rifja upp hvernig á að reikna, nota bene alls ekki flókin dæmi en dæmi sem við erum ekki að reikna á hverjum degi og höfum ekki verið að reikna í mörg ár.

Við Pálmi erum bæði með stúdentspróf í stærðfræði. Pálmi fór svo í atvinnuflugmannsnám þar sem hann þurfti heldur betur að læra allskonar stærðfræði, eðlisfræði og ég veit ekki hvað þetta allt heitir. Þrátt fyrir það getur það reynst þrautinni þyngra að rifja upp hvernig í ósköpunum hin og þessi dæmi eru reiknuð.

Ég ætla að fullyrða að við foreldrar skólabarna höfum líklega verið missterk í stærðfræði á okkar yngri árum. Ég sem dæmi átti frekar erfitt með stærðfræði í grunnskóla og það var ekki fyrr en ég fór í framhaldsskóla sem ég fór að átta mig á henni.Því er það kannski ekkert sérstaklega frábær hugmynd að hún komi heim með stærðfræðibækurnar þar sem við hjónin skiptumst á að rifja upp hvernig er best að reikna dæmin.
Leiðbeiningarnar í bókinni eru mjög óljósar og ekki hægt að treysta á þær við úrlausn allra dæmana

Eftir mikil heilabrot og loksins lausn á dæmunum situr Perla eftir algjörlega grunlaus um það hvernig á að reikna dæmin.

Ég tók þessa umræðu á snappinu mínu fyrir ekki svo löngu og þar voru allflestir sammála því að stærðfræði ætti ekki að vera kennd heima, heldur í skólanum.

Það er kannski erfitt að eiga við þetta ef nemendur eru ekki að ná að halda áætlun sem sett er en kannski þarf að finna einhverja aðra lausn svo að þau fái rétta kennslu.

Ég kasta þessu allavega hér með útí kosmósið.

Til þess að fyrirbyggja allan misskilning þá erum við rosalega ánægð með skólann hennar Perlu og kennarana hennar.

Þangað til næst…

Kveðja,

Emilía Björg
Þið finnið mig á instagram: emiliaboskars

ebo-11