Stefanía – Höfnun er ekki heimsendir

Það er aldrei skemmtilegt að fá höfnun.

 Sama hvort hún er í formi ástar, vinskapar, vinnu eða hvaðeina. En þótt að þú fáir höfnun þá þýðir það ekki að þú sért minna virði sem manneskja, í rauninni þá er höfnun oftast ekki einu sinni persónuleg.

Þegar okkur er hafnað er eitt það algengasta sem að við gerum að setja kastljós á okkur sjálf. Afhverju ég? Hvað er að mér? Hvers vegna er ég ekki nógu góð/ur? Við eigum það til að einblína svo mikið á okkur sjálf að við tökum ekkert annað til greina. Ég þarf reglulega að minna mig á að ég er ekki miðpunktur alheimsins og að gjörðir annara hafa ekki alltaf eitthvað með mig að gera.

Eitt af því sem að ég hef lært er að tímasetningin skiptir öllu máli. Akkúrat núna þá vantar ef til vill ekki fólk með þína hæfileika inn í fyrirtækið, kannski er verið að skera niður og það eru ekki til peningar til þess að greiða nýjum starfsmanni laun. Kannski er manneskjan sem að þér líkar við nýlega komin úr sambandi og vill ekki binda sig eða kannski á sá aðili sem að þig langar að kynnast betur of marga að og hefur ekki tíma né orku í að mynda ný sambönd. Akkúrat núna þá áttu ef til vill ekki samleið með því sem að þú telur þig vilja. Það þýðir ekki endilega að það muni aldrei gerast, en það mun ekki gerast núna.

Taktu alvarleikann úr aðstæðunum. Þú ert ekki fyrsta manneskjan sem hefur verið hafnað. Það gerist við alla og það mun gerast oft. Þú getur lifað lífinu svo varkárlega að þú komir þér aldrei í aðstæður þar sem þú gætir fengið höfnun en hvers konar líf er það? Að taka áhættur getur fært þér ótrúleg tækifæri, stelpan sem að þig langar að bjóða út getur orðið manneskjan sem hafnar þér og lætur þér líða illa í nokkra daga eða hún getur orðið eiginkona þín sem veitir þér hamingju í áratugi. Þú veist ekki fyrr en þú lætur á það reyna.

Þú hefur verið hinum megin við línuna. Hefur þú alltaf sagt já við öllu? Hélt ekki. Ég er líka viss um að í flestum tilvikum þar sem þú hefur verið aðilinn sem hafnar hefur það haft mun meira með þig að gera en hina manneskjuna. Hvaða tímapunkti þú ert á og að hverju þú ert að leita, hverjar aðstæðurnar eru í lífi þínu.

Það mikilvægasta af öllu, sem er oft litið framhjá, er að ef til vill þarftu að skoða eigið sjálfsálit. Það er þekkt fyrirbæri að vilja það sem maður getur ekki fengið, en stoppum aðeins og hugsum um hversu fáránlegt það er. Að einstaklingur sé ekki hrifinn af þér er ekki heillandi eiginleiki! Það er ekki eitthvað sem að maður leitar að í öðru fólki. Aldrei veit ég til þess að ég hafi hugsað „ég vona að honum finnist ég ekki vera sín týpa og sýni mér enga athygli“, þess konar hugsun er út í hött! Þegar þér finnst þú frábær þá viltu ekki hafa fólk í lífi þínu sem er ekki á sama máli. Besta tilvitnun sem ég hef lesið var í bók sem heitir „The Perks of Being a Wallflower“, en þar segir að við samþykkjum þá ást sem við teljum okkur verðskulda. Þú átt skilið það besta og um leið og þú finnur það í hjarta þínu þá hættirðu að þrá manneskjur sem að hafna þér.

Stefanía

Stefanía – Skellti mér í sólina með mínar uppáhaldsvörur!

Ég skellti mér í stutt sólar-stopp til Spánar í seinustu viku og hafði með í farteskinu nokkrar af mínum uppáhalds vörum frá Moroccanoil!

 

Ég raunverulega elska þetta merki. Eftir að ég lýsti það er hárið mitt er þurrara en eyðimörk og hef ég núna skipt út öllum sjampóunum mínum fyrir Moroccanoil® Hydrating sjampó og næringu. Síðan nota ég Moroccanoil® Intense Hydrating hármaskann reglulega, hann er svo þægilegur í notkun því að það nægir að vera með hann í 5 mínútur í hárinu og það verður sturlað mjúkt.

Moroccanoil® Hydrating sjampó & næring eru full af andoxunarríkri arganolíu,
A og E vítamínu & rauðþörungum sem draga til sín raka.

Annað sem kom sér einstaklega vel í þessari ferð var Moroccanoil® Dry Body Oil. Þessi olía fékk verðlaun frá New Beauty fyrir Most Intense Skin Softener árið 2016 og því er ekki að undra að hún gerir húðina sjúklega mjúka – og það er svo góð lykt af henni! Með henni er ég búin að vera að nota Moroccanoil® Shower Milk, sem mýkir og hreinsar á sama tíma.

Svo er auðvitað ekki hægt að gera færslu um Moroccanoil án þess að minnast á þeirra frægustu (og bestu) vöru, sjálfa Moroccanoil® Treatment hárolíuna, en hana má nota sem hárnæringu, mótunar og áferðarvöru. Hana er hægt að fá fyrir allar hárgerðir en líka Moroccanoil® Treatment Light, sem er sérstaklega hönnuð fyrir fíngert eða ljóst hár.

Moroccanoil® Treatment olían er auðguð með andoxunarríkri arganolíu og glansaukandi vítamínum,
minnkar flækjur, styttir þurrkunartíma og eykur gljáa.

Þessi færsla er gerð í samstarfi við Regalo fagmenn, hægt er að kynna sér vörurnar betur á

www.regalo.is & www.facebook.com/regalofagmenn

Svo mæli ég líka með því að þið addið þessum snillingum á snapchat: regalofagmenn, þar sem ásamt upplýsingum um vörurnar þú ert vís með að finna hina ýmsu frægu Íslendinga taka dansspor með Fríðu!

Njótum þess að gera vel við hárið okkar!

Sólarkveðja ♥

Stefanía

 

Stefanía – Uppáhalds vörurnar mínar til þess að takast á við þurrk!

Nú þegar veturinn er genginn í garð er enn á ný komið það vandamál sem hrjáir marga á þessum tíma árs – þurrkur.

Hitabreytingarnar hafa þau leiðinlegu áhrif að við erum mörg gjörn á þurrkublettum, varaþurki og öðrum skemmtilegheitum.

Hér eru nokkrar af mínum uppáhalds vörum sem að hjálpa mér að takast á við þurrk.

Hörfræolía

Það er jafn mikilvægt að smyrja sig að innan og utan og er hörfræolía tilvalin til þess. Matskeið að morgni til og þú finnur muninn ótrúlega fljótt! Eina sem er leiðinlegt er að hún er ansi vond á bragðið, en ég hef alltaf glas af gulrótarsafa tilbúinn þegar ég tek þetta inn.

 

Dry Body Oil frá Morroccanoil

Ég er forfallin aðdáandi Morroccanoil varanna og þessi olía er lifesaver fyrir þurra húð, plús hvað lyktin af henni er geðveik.

 

Lip Medex frá Blistex

Þessi blái ætti nú að vera flestum kunnugur, enda lengi verið vinur flesta landsmanna. Fátt bjargar brotnum vörum eins og þessi demantur.

 

8 Hour Cream frá Elizabeth Arden

Þetta er það sem ég nota ef að ég fæ virkilega slæma þurrkubletti eða kuldaexem. Þú þarft ótrúlega lítið magn svo að þetta endist sjúklega lengi og húðin drekkur þetta í sig.

 

Handáburður frá L´Occitane

Uppáhalds, uppáhalds. Þennan nota ég reyndar allt árið, en ég er líka skrítin með það að ég þvæ á mér hendurnar fáránlega oft og sótthreinsa þær sem þurrkar rosalega upp húðina.

 

Clinique Moisture Surge Intense

Þetta er (amk hingað til) mest rakagefandi andlitskremið sem ég hef prófað. Nær að vera fullt af raka án þess að vera feitt. Love it.

Svo er náttúrulega lykilatriði að drekka nóg af vatni!

 

Stefanía

Stefanía – Hvað getum við gert til að auka sjálfstraust og vellíðan? Hér eru 5 frábær ráð

5 ráð til að auka sjálfstraust og vellíðan

 

Til eru ótal mörg ráð sem eiga að leiða þig á betri andlegan stað og hef ég sennilega skoðað þau flest. Hérna eru fimm þeirra sem ég reyni að hafa í huga reglulega og hafa hjálpað mér helling í hinni sífelldu leit að betri líðan.

Breyttu því hvernig þú skilgreinir þig

Þú velur hvað það er sem skilgreinir þig. Það sem hendir okkur í lífinu mótar okkur vissulega, en þú ræður á hvaða hátt. Þú getur horft á þig sem fórnarlamb eða sem sigurvegara – sama reynslan, önnur afleiðing. Slæmar og niðurrífandi hugsanir í eigin garð er lært mynstur, þú bjóst það til og þú getur breytt því. Endurtaktu með sjálfri þér hvernig þú ert, á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og þú munt breyta því hvernig þú skilgreinir þig. Þú ræður hver þú ert.

Hættu að bera þig saman við aðra

Það er risastór keppni í gangi á öllum samfélagsmiðlum um það hver á skemmtilegasta lífið, þekkir fallegasta fólkið og myndast óraunverulega vel. Verðlaunin koma í formi like-a sem að staðsetja viðkomandi á verðugs-skalanum sem við búum til. Þú tengist internetinu og færð hundruðir mynda af öfundsverðum aðstæðum sem geta orðið til þess að okkar líf virðist leiðinlegra og við yfirfærum það yfir á eigið sjálfsvirði. Þess vegna er svo mikilvægt að muna að þú veist ekki neitt. Allir geta sett inn myndir sem að líta dásamlega út en það er ekki samasemmerki á það að þessi manneskja sé hamingjusamari en þú. Að öllum líkindum horfir þessi manneskja á einhvern annan og finnur fyrir sömu tilfinningum og þú. Það besta sem þú getur gert er að einbeita þér að því fallega í lífi þínu, óháð því hvernig aðrir hafa það.

Fyrirgefðu öðrum – og sjálfri þér

Ég átti mjög erfitt með að skilja hvers vegna það væri gott fyrir mig að fyrirgefa þeim sem gert höfðu alvarlega á minn hlut. Í flestum tilvikum eiga báðir aðilar einhverja sök en svo eru dæmi þar sem það var brotið á þér og þú gerðir ekkert rangt. Afhverju ættum við að fyrirgefa slíkum einstaklingum? Þú fyrirgefur öðrum fyrir þig sjálfa. Að bera með sér reiðina og sársaukann er gífurlega erfitt og tekur mikið á andlega. Þessi fyrirgefning getur tekið langan tíma og það kemur brotaaðilum ekkert við hvort þú kýst að fyrirgefa þeim, þú þarft ekki að segja neinum það frekar en þú vilt. En með því að fyrirgefa ertu að leysa þig sjálfa úr fjötrum sársauka og öðlast hugarró. Það er líka mikilvægt að fyrirgefa sjálfri sér fyrir eigin hegðun, hugsanir og sjálfsskaðandi hegðun. Þú hefur vald til þess að taka líðan þína í eigin hendur og þú hefur mátt til þess að fyrirgefa – fyrir þig.

Legðu áherslu á þakklæti

Ég er sannfærð um það að hamingja er afleiðing þakklætis frekar en orsök. Taktu þér tíma á hverjum degi, þó ekki sé nema mínúta, og hugsaðu um það sem þú ert þakklát fyrir í lífi þínu. Það er alltaf hægt að finna eitthvað til þess að þakka fyrir, fjölskyldu og vini, að hafa þak yfir höfuðið og rennandi vatn, að fá tækifæri til þess að læra og vinna eða að vera við góða heilsu. Það er hægt að þakka fyrir það eitt að draga andann í dag. Þegar þú einblínir á það góða í lífinu er minna pláss fyrir niðurdrepandi hugsanir og þér líður betur.

Þú ert ekki einstök manneskja

Þetta hljómar kannski ekki hughreystandi en það er ótrúlega hollt að minna sig á það að þú ert ekki ein af þínu tagi. Það er nefnilega endalaust af fólki sem er að díla við nákvæmlega það sama og þú! Í hvert sinn sem þú upplifir óöryggi eða hræðslu sem að þú þorir ekki að tala um af ótta við að verða að athlægi minntu þig á þá staðreynd að það er fullt af fólki sem er að upplifa sömu tilfinningar og þú. Að upplifa kvíða og ótta þýðir ekki að það sé eitthvað að þér sem manneskju, það þýðir bara að þú ert að finna fyrir sömu tilfinningum og margir aðrir, og það er ekkert óeðlilegt við það.

Vonandi hjálpar þetta eitthvað og ef þú hefur fleiri góð ráð þá endilega láttu mig vita!

Stefanía

Stefanía – Að lifa í núinu, afhverju skiptir það máli?

Að lifa í núinu

Það er sífellt meiri vakning í gangi hvað varðar núvitund. Ég verð hins vegar að viðurkenna það að ég hef aldrei skilið hvað það í rauninni er. Ég hef prófað núvitundar-hugleiðslu og lært um hugræna atferlismeðferð en ég hef alltaf verið jafn týnd hvað þetta varðar (þótt ég hafi ekki alltaf viðurkennt það).

Því hefur það komið mér sérstaklega á óvart undanfarið að ég virðist vera að fatta þetta, amk á þann hátt sem að hentar mér. Ég á nefnilega við það vandamál sem að ég er viss um að einkennir mjög marga, að ofhugsa gjörsamlega allar aðstæður. Hausinn á mér er fær um að rýna í hvert einasta orð, hreyfingu eða svipbrigði einhvers og koma með trilljón mismunandi túlkanir. Að taka lítið vandamál og gera það að því stærsta sem hefur nokkurn tímann komið fyrir.

Maður að nafni Matt Killlingsworth bjó til app fyrir snjallsíma, sem á sama tíma var sennilega stærsta rannsókn á líðan manna í tengslum við núvitund. Með gífurlega stórt úrtak um allan heim sendi hann reglulegar spurningar um líðan einstaklingsins á því augnabliki. Ef þið viljið vita meira um þetta er hægt að kíkja á: https://www.trackyourhappiness.org/

Það sem hann komst að var að fólk sem var annars hugar, lét hugann reika, var iðuelga ekki jafn ánægt og það fólk sem var að einbeita sér að því sem var í gangi í núinu. Það sem kom honum sérstaklega á óvart var að það sama gilti án tillits til þess hvað fólk var að gera, hvort þau væru að njóta sín eða vinna að leiðinlegu verkefni. Sama hvort það var að láta hugann reika til betri tíma eða einhvers sem það kveið fyrir.

Fólkið sem var í núinu var ánægðara.

En hvernig getum við haldið okkur í núinu? Núna er ég langt frá því að vera sérfræðingur á þessu sviði en ég get hinsvegar sagt ykkur hvað virkar fyrir mig!

Það sem ég gæti mest að er að vera meðvituð um það þegar ég er að ofhugsa/oftúlka aðstæður og skilja að ég hef kraftinn til þess að stoppa þessar hugsanir. Ég kýs að einbeita mér að fótunum mínum, þegar ég fatta að ég er komin einhvert lengst í ímyndaða framtíð þá beini ég athyglinni að fótunum, finn að ég stend á jörðinni og er hérna, núna.

Þetta þarf ég stundum að gera 80 sinnum á dag, en mér finnst þetta snilld. Með því að stöðva þetta sífellda hugarferðalag er ég langt um skilvirkari og á betri samskipti við fólkið í kring um mig (ég raunverulega hlusta).

Stefanía

Stefanía – Óttinn við að eldast

Það eru forréttindi að eldast… Er það ekki?

Mér fannst alltaf frábært að vera febrúarbarn. Ég var fyrst vina minna til þess að fá bílpróf, verða fjárráða og geta verslað áfengi. Þegar ég komst yfir tvítugt var þetta ennþá allt í góðu, en þegar ég náði 25 ára aldri þá birtist óvæntur kvíðahnútur í maganum þegar afmælisdagurinn nálgaðist. Ég er allt í einu farin að segja „Ég er fædd ´91“ í stað þess að segja „Ég er 26 ára“ (og bráðum 27!).

Allt í einu getur maður ekki endilega borðað ruslfæði í öll mál og samt líða vel eða vakað heilu næturnar án þess að verða gjörsamlega gagnslaus daginn eftir. Þú þarft orðið á gleraugum að halda. Þú rýnir ekki lengur í spegilinn eftir bólum heldur hrukkum – sem ekki verður bjargað með tea tree olíu. Hvað þú ætlar að verða þegar þú ert stór er ekki lengur hugsun sem hægt er að dagdreyma um og fara síðan að brasa eitthvað tilgangslaust, því að þetta er orðin spurningin um það hvað þú ætlar að gera núna.

Ég veit að þessi hugsun er ekki óalgeng og að vissu marki alveg skiljanleg, breytingar hafa áhrif á líðan okkar, og óhagganlegar breytingar ekki síður. Ég þarf á því að halda að minna mig á hversu dýrmætt það er að vera til í þessum heimi og að hvert ár er gjöf.

Gjöf sem að ekki allir fá.

Ég skrifa þetta fyrir mig, og fyrir hverja þá manneskju sem finnur fyrir kvíða yfir því að verða árinu eldri, vegna þess að það er nauðsynlegt að minna sig á það að með hverju ári sem líður ertu vitrari, þú ert reynslumeiri, þú hefur lært nýja hluti og uppifað aðstæður sem hafa gert þig að þeirri manneskju sem að þú ert í dag og verða þér leiðarvísir fyrir þá manneskju sem að þú munt verða. Mikilvægast af öllu er að þú ert búin, og munt halda áfram, að eyða tíma með fólkinu sem að þú elskar. Þú ert á lífi á þessari jörð og þú getur notað þann tíma sem þú ert hér til þess að gera heiminn að betri stað, til þess að vera til staðar fyrir þá sem að þú elskar.

Vertu þakklát/ur fyrir þetta líf sem þér er gefið og mundu þessa staðreynd: Það eru forréttindi að eldast.

Stefanía

Stefanía – Vinna og áhugamál geta verið sami hluturinn

Það er ein spurning sem að ég fæ í hvert sinn sem að ég segi fólki að ég sé að læra trúarbragðafræði.

„Við hvað geturðu þá unnið?“

Ég skil þessa spurningu að vissu leiti því að jú, þetta er  sannarlega ekki algengt val og hvað þá á Íslandi.

Ég spurði mig sjálf að þessu þegar ég var að klára BA gráðuna mína, hvað ég gæti starfað við og afhverju ég væri að gera þetta. Hvort ég ætti kannski að taka masterinn í mannauðsstjórnun svo að ég ætti auðveldara með að finna vinnu.

Það sem breytti sýn minni á þetta var einn af kennurum mínum, sem gaf mér bestu ráð sem ég hef fengið á þessari skólagöngu. Hann sagði mér að hafa ekki svona miklar áhyggjur af þessu, að ef ég fylgdi hjartanu og gerði það sem ég elskaði að gera þá myndi það leiða mig á rétta braut. Þarna stóð virtur maður með doktorsgráðu, sem hafði ferðast um allan heim og gert ótrúlega hluti á því sviði sem að ég var að hugsa um að fórna vegna þess að ég óttaðist að eiga erfitt með að finna mér vinnu. Ég hef sjaldan verið jafn þakklát fyrir samtal.

Því að ég elska þetta nám. Þetta er fjórða árið sem ég eyði í háskólanum og ég hef notið mín hvern einasta dag. Ég er alltaf spennt að fara í skólann, ég er alltaf spennt að læra meira um þetta efni. Það er of fáir sem að geta sagt hið sama.

Þegar þú gerir eitthvað sem þú hefur brennandi áhuga á þá mun það leiða þig á rétta braut.

Sama hvað ég geri í framtíðinni (planið mitt er klárlega að verða næsti Reza Aslan) þá mun ég gera það sem ég elska. Því að þetta er það sem ég hef brennandi áhuga á. Ég verð kannski aldrei rík en tilhugsunin um að ég muni elska starfið mitt og gera líf mitt bjartara fyrir vikið skiptir mig mun meira máli.

Það hafa ekki allir kost á þessu, ég tala út frá gífurlegum forréttindum hvítrar stúlku á Íslandi sem hefur tækifæri til þess að mennta sig. En mér finnst þetta mikilvægt engu að síður.

Ekki láta aðra segja þér hvað þú átt að gera. Finndu hvar þitt áhugasvið liggur, hvað er það sem þú getur hugsað þér að gera það sem eftir er ævinnar?

Farðu svo og láttu drauma þína rætast.

Stefanía

Stefanía – „Oj hvað þú ert horuð“ Að setja út á líkama annara er ekki í lagi!

Ég átti í talsverðum erfiðleikum við það að byrja á þessari grein, vegna þess að það virðist oft sem ekki sé hægt að benda á eitt vandamál án þess að það sé túlkað sem verið sé að gera lítið úr öðru. Það er ekki ætlun mín. Mér finnst ég hinsvegar knúin til þess að vekja athygli á vandamáli sem hefur haft mikil áhrif á mig sjálfa og fólk sem ég elska.

Ég hef alltaf verið grönn. Ég var hræðilega matvant barn og mamma keypti fyrir mig sérstaka kaloríumikla drykki því það var oft á tíðum það eina sem ég vildi ofan í mig láta. Þrátt fyrir þetta var ég ekki óheilbrigt barn, mig skorti ekki vítamín né önur mikilvæg efni. Þrátt fyrir það fékk ég oft að heyra niðrandi orð, líkt og hvað ég væri horuð, hvort ég fengi ekkert að borða heima hjá mér og hvað ég liti illa út.

Þetta sagði fullorðið fólk við 9 ára barn og sá ekkert athugavert við það.

Í dag er mikil fræðsla um hin slæmu áhrif fitu-skammar (e. fat shaming) – og það er frábært. Það er hins vegar ekkert sagt um hina hliðina á peningnum, og það er ekki í lagi. Enn í dag hef ég og fólk í kring um mig, jafnt stúlkur sem strákar, fengið að heyra ljótar athugasemdir um eigin líkama á almannafæri. Þá helst á stöðum eins og líkamsræktarstöðvum og í sundi. Skammarlaust hefur ókunnugt fólk tekið sér það bessaleyfi að gera lítið úr þeim, og það sem verra er, að fólk sem að verður vitni af þessu áreiti stígur ekki inn í og bendir á að þetta sé röng hegðun.

Ég var ekki 9 ára að svelta mig og ég átti ekki skilið að sagt væri við mig að líkami minn væri ljótur og óeðlilegur.

Mér finnst súrrealískt að þurfa að biðla til almennings að láta það vera að setja út á líkama ókunnugra, sama hvort þér kunni að finnast manneskjan of feit eða of mjó, þá hefur þú engan rétt til þess að gera lítið úr viðkomandi, sérstaklega ef að um börn er að ræða.

Við eigum að elska okkur, í öllum stærðum og elska líkamann sem við búum í.

Sama hvernig þú lítur út, stattu með sjálfum þér og fólki sem þarf á þér að halda.

 

Stefanía (og litla Stef)

Stefanía – Tíminn er ekki vandamálið, heldur forgangsröðun!

Allt of oft hef ég í samtali við aðra verið að ræða eitthvað skemmtilegt áhugamál, einhverja íþrótt, jóga, ferðalag og annað álíka, þegar upp kemur þessi setning:

„Mig langar til þess að gera þetta en ég hef ekki tíma til þess“

Hérna finnst mér mikilvægt að benda á þá staðreynd að það er einfaldlega ekki rétt.

Tíminn er nefnilega ekki vandamálið, vandamálið er forgangsröðun.

Ef að eitthvað nauðsynlegt kæmi upp á, til dæmis að það þyrfi að laga eitthvað á heimilinu, þá myndirðu finna tíma til þess.

Að búa sér til tíma er mjög sérstakt hugtak, en við tengjum samt við það. Við skiljum að við erum ekki að bæta við tímum í sólarhringinn heldur erum við að endurskipuleggja. Við erum að forgangsraða.

Það er mikil synd hversu neðarlega við eigum það til að setja okkur sjálf á þennan lista. Auðvitað er það tímafrekt að vera í vinnu eða/og skóla, að hugsa um gæludýr, fjölskyldu og heimili en það er mikilvægt að gleyma ekki sjálfum sér þótt að þú sért að hugsa um aðra. Það er mikilvægt að búa til tíma fyrir sjálfan sig.

Þú skiptir máli og þín eigin vellíðan er forsenda þess að fólkið í kring um þig fái að upplifa bestu útgáfuna af þér sjálfri. Þú þarft ekki að breyta gjörsamlega um lífsstíl (frekar en þú vilt) en ekki segja mér að þú getir ekki gefið þér klukkustund eða tvær á viku til þess að gera eitthvað sem að þig langar, eitthvað sem að þú nýtur þess að gera.

Tíminn er ekki vandamálið, vandamálið er að muna að setja þig sjálfa ofar á forgangslistann. Elskaðu þig sjálfa og leyfðu þér að njóta alls þess sem þetta fallega líf hefur upp á að bjóða. Gefðu þér tíma fyrir þig.

Stefanía

Stefanía – Karlmenn hafa líka tilfinningalegan tilvistarrétt

Ég er feministi.

Það þýðir að ég trúi því að jafnrétti eigi að ríkja í samfélaginu, sama hvers kyns þú ert.

Baráttumál jafnréttis eru jafn mörg og þau eru mikilvæg, en eitt af því sem að mér finnst ekki lögð næg áhersla á er réttur karlmanna til þess að tjá tilfinningar sínar.

Ég er ekki að halda því fram að kynin séu eins. Ég held því hinsvegar fram að allar manneskjur hafa tilfinningar og að samfélagið veiti okkur ekki sama rétt til þess að tjá þær. Ég leyfi mér að segja að karlmenn séu almennt líkamlega sterkari en tilfinningalega veikari.

Karlmenn eru ólíklegri til þess að segja frá einelti, kynferðislegu ofbeldi og þunglyndi. Þeir eiga að vera sterkir og harðir af sér. Þeir eiga að „bera sig karlmannlega“.

Yfirgnæfandi fjöldi þeirra sem að fremja sjálfsmorð á Íslandi eru ungir karlmenn.

Til drengja eru gerðar aðrar kröfur en til stúlkna og teygjast þessi áhrif til allra anga samfélagsins. Frá heimilum til menntastofnanna og út á vinnumarkaðinn. Af fjölskyldu, vinum og yfirvaldi.

Ég man þegar ég var barn og það var gert grín að dreng sem að valdi að fara í sauma frekar en smíði. Afhverju?

Afhverju mátti ég gráta þegar að ég meiddi mig en strákunum var sagt að vera sterkir og harka þetta af sér?

Við þurfum að leggja okkur fram sem samfélag að breyta þessu. Kynin þurfa að eiga jafnan rétt sama á hvaða grundvelli.

Hvetjum drengina okkar til þess að tjá sig og sýnum þeim að það er ekki samasemmerki á milli þess að vera tilfinningasamur og veiklyndur.

Stefanía