Sykurlaust páskaegg með piparmyntu

Páskaegg með piparmyntu

Jæja þá er farið að styttast í páskana og freistingarnar eru í gámavís í verslunum landsins. Súkkulaði af öllum stærðum og gerðum, troðfullt af sykri og gúmmelaði. Örvæntum þó ekki, borðum bara vel áður en farið er í verslunarferðina og verum skynsöm. Það er auðvelt að útbúa sykurlaus egg ef maður vill ekki vera einn úti í horni á páskadag með eitt harðsoðið og mér finnst piparmynta svo góð að ég ákvað að fylla mín egg með piparmyntukremi.

paskaegg

Piparmyntufyllt páskaegg

Fylling:

100 g kókosolía
80 g sukrin melis
2 tsk piparmyntudropar ( KÖTLU )
10 dropar Via Health stevía, bragðlaus
1/2 tsk vanilludropar
1 msk rjómi má vera laktósafrír

 

Pískið allt vel saman, tekur smá stund að blandast en það gerist öruggulega. Hellið í konfektform og frystið.

 

Súkkulaðið í eggin:

60 g kókosolía
70 g kakósmjör ( fæst frá Sollu í gylltum pokum)
50 g Sukrin melis
30 g kakó
10 dropar Via health stevía bragðlaus eða vanillu
1 tsk hnetusmjör
nokkur saltkorn

paskaegg 2

Hitið olíuna og smjörið saman, blandið sætunni út í og að lokum kakóinu.
Hellið súkkulaði í páskaeggjaform (ég keypti svona litla helminga) upp að 1/3 Frystið.
Setjið nú frosið piparmyntunammið ofan í formin, gæti þurft að skera niður í litla bita ef það er of stórt. Hellið svo restinni af súkkulaðinu yfir og frystið aftur. Tilbúið eftir 20 mín fylltir súkkulaðimolar eða egg með piparmyntu.

Ath. að piparmyntuuppskriftin er pínu stór, mætti helminga hana eða eiga bara aukalega af piparmyntunammi til að maula á eða nota sem krem á köku.

 

Kveðja

María Krista
María Krista Hreiðarsdóttir : bloggari

http://mariakristahreidarsdottir.blogspot.com/

Munið eftir að líka við okkur á facebook HÉR

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *