Erna Kristín – Innlit dagsins er í glæsilega íbúð á Selfossi

Innlit dagsins

Ekkert smá flott íbúð og það er greinilegt að Guðbjörg er með auga fyrir fallegum stílíseríngum!

Guðbjörg ætlar að deila með okkur góðum hugmyndum þegar kemur að breytingum á heimilinu ásamt því að segja okkur frá sínu uppáhalds rými og fleira skemmtilegt !

 

Nafn : Guðbjörg Ester Einarsdóttir

Segðu mér aðeins frá þér: 

Ég er 27 ára og bý á Selfossi ásamt Árna kærastanum mínum. Við Árni keyptum okkar fyrstu íbúð í apríl 2017 og höfum síðan þá verið hægt og rólega að koma okkur vel fyrir og skapa heimili. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á innanhús hönnun og hef því notið þess mikið að fá að skapa mitt eigið heimili.

Hvernig myndir þú lýsa þínum stíl ?

Ég myndi ekki segja að ég væri með einhvern ákveðin stíl, en ég heillast mest af einföldum og klassískum hlutum. Monochrome stíll á mjög vel við mig þar sem ég heillast mest að svörtu, hvítu og gráu. Þegar það kemur að hönnun þá heillast ég mest að Skandinavískri hönnun þannig það má segja að ég blandi þessu öllu saman.

Hvar sækir þú innblástur ?

Ég nota Instagram lang mest til að sækja mér innblástur. Það eru til svo margir fallegir Instagram reikningar sem er gaman að fylgjast með og fá hugmyndir. Ég fylgist mjög mikið með norskum innanhús instagrömmurum, en Norðmenn eiga margir einstaklega falleg heimili.

Ég elska líka að setjast niður með nýjasta Hús og Híbýli eða Bobedre og sökkva mér í fallega innanhús hönnun og skemmtilega pistla.

Ertu með góð ráð sem þú vilt deila með okkur hinum þegar kemur að heimilinu ?

Verið dugleg að breyta uppröðun og færa til hluti. Ný uppröðun á sjónvarpsskeinknum eða í bókahillum gerir bara svo mikið fyrir augað. Það eru örugglega fleiri eins og ég og eiga mikið af kertastjökum og skrauti sem er bara inni í skáp þar sem það er ekki pláss fyrir allt í íbúðinni, en með því að breyta annað slagið þá er það tækifæri til að leyfa því skrauti að njóta sín.

Myndir á veggjum er einnig nauðsynlegar að mínu mati. Verið óhrædd að hengja upp myndir og leika ykkur með uppröðun. Ég er dugleg að víxla myndum og leyfa þeim að njóta sín í öðru umhverfi. Maður á aldrei nóg af myndum og plöntum!

Hvert er þitt uppáhalds rými og afhverju ?

Eldhúsið og stofan eru eitt stórt rými í íbúðinni og það rými er í mestu uppáhaldi. Bæði útaf ég eyði mestum tíma í þessu rými og síðan er það einnig rýmið sem við erum búin að eyða mestum tíma í að gera eins heimilislegt og við getum.

Hvað er númer 1,2 & 3 þegar kemur að því að velja réttan lit fyrir veggi heimilisins?

Ég er kannski ekki rétta manneskjan til spyrja út í litaval á veggjum þar sem ég er með alla veggi hvíta og heillast mikið að hvítum veggjum. En ef ég væri að velja lit á veggina hjá mér þá myndi ég velja litinn út frá rýminu og mála alla veggi í sama lit. Það eru til svo margir fallegir litir í dag og mikil litagleði sem mér finnst mjög jákvætt. Grænir litir eru t.d. í mjög miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana.

Eitthvað fleira sem þú vilt deila með okkur sem er gott að vita þegar kemur að framkvæmdum, breytingum eða öðru sem snýr að heimilinu?

Þegar það kemur að stórum breytingum þá finnst mér mjög mikilvægt að vera búin að hugsa út í öll smáatriði og sjá fyrir mér breytingarnar. Ég er mjög lítið fyrir að aða í einhverjar breytingar og sjá síðan eftir þeim þegar ég er byrjuð.

Eitt gott ráð í lokinn sem er gott að hafa í huga þegar þig langar að kaupa þér eitthvað fyrir heimilið er að vera búin að finna stað fyrir hlutinn áður en þú kaupir hann. Ég nota þetta ráð mjög mikið þegar mig langar að kaupa mér hluti eða húsgögn, því þá er ég búin að meta það hvort hluturinn sé þess virði eða verði bara óþarfi. Þetta er einnig mjög gott sparnaðar ráð fyrir manneskju eins og mig, sem væri til í að eiga svo marga hluti sem ég hef enga þörf fyrir.

og að lokum hvert er leyndarmálið á bakvið fallegt heimili ?

Að mínu mati er það persónulegi parturinn sem gerir heimilið fallegt og frábrugðið öðrum heimilum. Ekki gleyma að leyfa þínu persónulega stíl að njóta sín. Mikilvægt að vera trúr sjálfum sér og gera það sem manni finnst fallegt.

 

Þakka Guðbjörgu fyrir spjallið og innlitið! 

Þar til næst!

xx

Erna Kristín

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *