Stefanía – Höfnun er ekki heimsendir

Það er aldrei skemmtilegt að fá höfnun.

 Sama hvort hún er í formi ástar, vinskapar, vinnu eða hvaðeina. En þótt að þú fáir höfnun þá þýðir það ekki að þú sért minna virði sem manneskja, í rauninni þá er höfnun oftast ekki einu sinni persónuleg.

Þegar okkur er hafnað er eitt það algengasta sem að við gerum að setja kastljós á okkur sjálf. Afhverju ég? Hvað er að mér? Hvers vegna er ég ekki nógu góð/ur? Við eigum það til að einblína svo mikið á okkur sjálf að við tökum ekkert annað til greina. Ég þarf reglulega að minna mig á að ég er ekki miðpunktur alheimsins og að gjörðir annara hafa ekki alltaf eitthvað með mig að gera.

Eitt af því sem að ég hef lært er að tímasetningin skiptir öllu máli. Akkúrat núna þá vantar ef til vill ekki fólk með þína hæfileika inn í fyrirtækið, kannski er verið að skera niður og það eru ekki til peningar til þess að greiða nýjum starfsmanni laun. Kannski er manneskjan sem að þér líkar við nýlega komin úr sambandi og vill ekki binda sig eða kannski á sá aðili sem að þig langar að kynnast betur of marga að og hefur ekki tíma né orku í að mynda ný sambönd. Akkúrat núna þá áttu ef til vill ekki samleið með því sem að þú telur þig vilja. Það þýðir ekki endilega að það muni aldrei gerast, en það mun ekki gerast núna.

Taktu alvarleikann úr aðstæðunum. Þú ert ekki fyrsta manneskjan sem hefur verið hafnað. Það gerist við alla og það mun gerast oft. Þú getur lifað lífinu svo varkárlega að þú komir þér aldrei í aðstæður þar sem þú gætir fengið höfnun en hvers konar líf er það? Að taka áhættur getur fært þér ótrúleg tækifæri, stelpan sem að þig langar að bjóða út getur orðið manneskjan sem hafnar þér og lætur þér líða illa í nokkra daga eða hún getur orðið eiginkona þín sem veitir þér hamingju í áratugi. Þú veist ekki fyrr en þú lætur á það reyna.

Þú hefur verið hinum megin við línuna. Hefur þú alltaf sagt já við öllu? Hélt ekki. Ég er líka viss um að í flestum tilvikum þar sem þú hefur verið aðilinn sem hafnar hefur það haft mun meira með þig að gera en hina manneskjuna. Hvaða tímapunkti þú ert á og að hverju þú ert að leita, hverjar aðstæðurnar eru í lífi þínu.

Það mikilvægasta af öllu, sem er oft litið framhjá, er að ef til vill þarftu að skoða eigið sjálfsálit. Það er þekkt fyrirbæri að vilja það sem maður getur ekki fengið, en stoppum aðeins og hugsum um hversu fáránlegt það er. Að einstaklingur sé ekki hrifinn af þér er ekki heillandi eiginleiki! Það er ekki eitthvað sem að maður leitar að í öðru fólki. Aldrei veit ég til þess að ég hafi hugsað „ég vona að honum finnist ég ekki vera sín týpa og sýni mér enga athygli“, þess konar hugsun er út í hött! Þegar þér finnst þú frábær þá viltu ekki hafa fólk í lífi þínu sem er ekki á sama máli. Besta tilvitnun sem ég hef lesið var í bók sem heitir „The Perks of Being a Wallflower“, en þar segir að við samþykkjum þá ást sem við teljum okkur verðskulda. Þú átt skilið það besta og um leið og þú finnur það í hjarta þínu þá hættirðu að þrá manneskjur sem að hafna þér.

Stefanía

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *